Uncategorized

Hverjir halda Ullarvikuna?

Ullarvinnslan Þingborg rekur sögu sína aftur til ársins 1990, er hópur kvenna á Suðurlandi sótti þar námskeið í ullariðn, undir stjórn Helgu Thoroddsen vefjarefnafræðings og Hildar Hákonardóttur veflistakonu.  Kennd voru bæði gömul og ný vinnubrögð við ullarvinnslu og almenn fræðsla um eiginleika ullar og vinnslu hennar.

     Fljótlega kom upp hugmynd að verslun með ullarvörur og innan árs frá því fyrsta námskeiðið var haldið opnaði námskeiðshópurinn verslun í gamla samkomuhúsinu í Þingborg í gamla Hraungerðishreppi, nú Flóahreppi og stofnað var samvinnufélag utan um hópinn og reksturinn og voru stofnfélagar 35.

Fyrstu árin skiptu Þingborgarkonur með sér verkum í versluninni á sumrin, en hún var eingöngu opin yfir sumarmánuðina. Síðan hafa einstakar konur innan hópsins tekið að sér að reka verslunina og stundum tvær saman. Verslunin var alltaf rekin á kennitölu samvinnufélagsins en frá 1. janúar 2019 hefur hún verið rekin sem einkahlutafélag af einni úr hópnum. Auk þeirrar sem rekur verslunina er starfskraftur í 60 % hlutastarfi og því hefur ræstst sú sýn, sem lagt var upp með, að skapa atvinnu fyrir konur á svæðinu.

Verslunin tekur ullarvörur í umboðssölu og eins eru keypt inn nokkuð af vörum til að selja. Allar prjónavörurnar í versluninni eru úr Þingborgarlopa, en hann er sérunninn fyrir Þingborg af Ístex og svo hefur verið allt frá árinu 1992. Þingborgarkonur fara í Þvottastöð Ístex á Blönduósi einu sinni á ári og velja ull í lopann sem svo er þveginn og kembdur hjá Ístex í Mosfellsbæ. Þetta ásamt kembivélinni sem er í húsinu eru hryggjarstykkin í starfsemi Þingborgar.

 Lopapeysur eru megin uppstaðan af því sem selt er í Þingborg. Margar úr hópnum og þær sem leggja inn peysur hanna sín eigin mynstur og þannig verður til mjög fjölbreytt flóra af lopapeysum. 

     Ullarvinnslan hefur reynst mikilvægur þáttur í þeirri viðeitni að halda við hefðum í ullarvinnslu og ekki síður að skapa nýjar. Þingborgarhópurinn lítur björtum augum til framtíðar, ullin á bjarta framtíð fyrir sér, nú þegar augu fólks eru að opnast fyrir því að nota ull og önnur náttúruleg efni til fatagerðar í stað gerviefna. 


Spunasystur er hópur 20 kvenna í Rangárvallasýslu sem hafa hist tvisvar í mánuði síðan 2013 til að spinna og vinna úr íslenskri ull.
Flestar eiga og rækta sauðfé með það í huga að framleiða sem best hráefni til ullarvinnslu.
Spunasystur hafa m.a. haldið sýningar og voru heiðursgestir á Handverkshátíðinni Eyjarfjarðarsveit 2018.

Facebook síða Spunasystra

Markmið spunasystra eru:
Breiða út þekkingu á þeim möguleikum sem íslenska ullin býður upp á hvað varðar ýmis konar handverk. 

Sýna fram á að hægt sé að skapa meira verðmæti úr ullinni sem fellur til í sveitinni og nýta hana á fjölbreyttari hátt en áður hefur verið gert.

Varðveita gamalt handverk og ekki síður að þróa nútímalegri aðferðir.

Uppspuni er smáspunaverksmiðja. Sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Hjónin Hulda Brynjólfsdóttir og Tyrfingur Sveinsson bændur í Lækjartúni eiga og reka verksmiðjuna heima á búi sínu samhliða búskap með sauðfé og holdakýr.

Spunaverksmiðjan tók til starfa 1. júlí 2017 og var opnuð formlega 17. mars 2018, þá einnig með lítilli verslun á efri hæð verksmiðjunnar.

Í Uppspuna vinna hjónin nánast alla ull af kindunum sínum, búa til garn í nokkrum ólíkum grófleikum, gera ýmsa aukahluti úr ull og hafa fengið ættingja, nágranna og vini til að koma með ýmiskonar handverk í búðina og hafa þar til sölu.

Hér er boðið upp á kynningu á því sem fer fram í verksmiðjunni, en einnig ýmsan fróðleik um íslensku sauðkindina, ullina af henni, hvað má gera úr henni og hvað hefur verið gert úr henni hingað til. 

Uppspuni býður upp á að fólk komi með ull af sínum eigin kindum í verksmiðjuna og fá hana unna í garn.