Hvað er Ullarvikan
Ullarvika á Suðurlandi 2021 – South Iceland Woolweek – var haldin fyrst 3.-9. október 2021. Miðstöð ullarvikunnar var í Félagsheimilinu Þingborg í Flóa og megindagskráin fór þar fram. Boðið var upp á námskeið í handverki og fengnir til þess kennarar frá m.a. Íslandi, Skotlandi, Noregi og Bandaríkjunum.
Á fimmtudegi, föstudegi og laugardegi ullarvikunnar var opin kaffistofa í Þingborg, þar sem gestum gafst kostur á að setjast niður, fá sér kaffi og stunda sitt handverk. Það voru fyrirlestrar og opin hús á ýmsum stöðum þar sem boðið var upp á ókeypis leiðbeiningar í prjóni, hekli og öðru sem viðkemur vinnu úr ull.
Settur var upp markaðsdagur á laugardegi ullarvikunnar, þar sem aðilum sem tengjast handverki, ull og sauðfé gafst kostur á að kynna sín fyrirtæki og framleiðslu.
Þá var hægt að fylgjast með rúningi á vegum Uppspuna smáspunaverksmiðju í Lækjartúni, ullarmat og áframhaldandi vinnslu ullarinnar í band. Gestum gafst einnig kostur á að kaupa sér reyfi og annaðhvort fá unnið band að eigin vali eða vinna það sjálfir.
Litasýning var á lifandi fé í Árbæjarhjáleigu í Rangárþingi ytra og þar voru kynnt hin ýmsu litbrigði íslenska fjárins.
Boðið var upp á námskeið af ýmsu tagi, m.a. í prjóni, hekli, spuna, litasamsetningum í prjóni, jurtalitun, þæfingu, gerð uppskrifta og fleira.
Ullarvikan var svo haldin aftur árið 2022 með sama sniði og er ætlunin að halda þessa hátið aftur annað hvert ár. Hægt er að lesa nánar um hópana sem standa að baki Ullarvikunnar hér.