Íslenska sauðkindin
Íslenska sauðféð tilheyrir flokki Norður-Evrópsku stuttrófu fjárkynjanna en í útlitseinkennum líkist það mest norska dindilfénu (Norsk Spælsau).
Norrænir víkingar komu með sauðféð frá Norðurlöndunum, þá aðallega Noregi og einnig frá Bretlandseyjum. Þeir fluttu líka með sér fé til Færeyja og Hjaltlands.
Helstu einkenni stuttrófufjár:
– U.þ.b. 9 cm langur þríhyrndur dindill.
– Tvennskonar ull í reyfinu, þel og tog.
– Fjölbreytni í litum og litasamsetningum.
– Hæfileikinn að losa sig árlega við megnið af reyfinu, að ganga úr ullinni.
– Harðgert fé sem þrífst við erfiðar aðstæður.
Nú munu vera rúmlega 430 þúsund vetrarfóðraðar kindur á Íslandi. Reikna má með að 70% fjárstofnsins sé hyrndur og 30% kollóttur. Ferhyrnt fé hefur verið ræktað nokkuð á seinni árum, jafnvel ferukollótt, til eru kindur með fimm eða sex horn.
Merkilegast má þó telja Forystuféð. Um 1500 forystukindur eru til hér á uþb 400 búum. Það hefur í eðli sínu að fara á undan fjárhópi í rekstri og aðrar kindur fylgja forystufénu. Forystufé er talið veðurglöggt og var það oft tregt til að fara úr húsi ef von var á slæmum veðrum á vetrum.
Fullvíst er talið að fé með hegðunarmynstur íslenska forystufjárins sé hvergi þekkt í heiminum nú á dögum nema á Íslandi. Þessi eiginleiki er því afar fágætur.
Forystufé er yfirleitt mislitt/tvílitt, háfætt og léttrækt.